149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:10]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Já, ég tel svo vera. Ég tel að í þessari fjármálaáætlun sýnum við fram á umtalsverða áherslu á forvarnaþáttinn, ekki síst í þeim málum sem lúta að öldruðum. Við erum til að mynda með eyrnamerktar um 100 milljónir fyrir heilsueflandi heimsóknir, sem svo er kallað, sem er aukin áhersla á að aldraðir geti verið heima og geti fengið þann stuðning sem þarf, jafnvel með aðkomu heilsugæslunnar. Það er algjörlega ný hugsun. Það er nýtt að það sé fjármagnað með þeim hætti.

Ég árétta það sem ég sagði áðan að við getum ekki haldið áfram með þá sýn að hjúkrunarrými fullnægi þörf okkar fyrir þjónustu við aldraða í lengri framtíð. Það kerfi mun algjörlega éta sig upp að innan. Við verðum líka að koma til móts við aukinn vilja eldra fólks til að hafa úr sveigjanlegum og fjölbreyttum úrræðum að velja.