149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:11]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Það er töluvert flókið að eiga skynsamlegar samræður á stuttum tíma um þetta mál, sérstaklega þar sem, eins og hæstv. ráðherra kom inn á áðan, svolítið erfitt er að rýna í það hvað tölurnar segja manni. Þetta eru yfirlitstölur, mun minna er greint niður en í fjárlögum, þannig að maður er svolítið að lesa á milli línanna og síðan í það sem sagt er þar á milli líka.

Mig langar fyrst að beina sjónum að því sem sagt er, og hefur komið fram, um vilja ráðherra til að efla aðgang sjúklinga að þjónustu sérfræðinga. Síðan er í kafla um sjúkrahúsþjónustu talað um að helstu útgjaldabreytingar snúi að því, fyrir utan nýja Landspítalabyggingu, að efla sérhæfða sjúkrahúsþjónustu með göngudeildarþjónustu og fjölgun starfsfólks — og er þá væntanlega átt við stóru sjúkrahúsin tvö, en það er ekkert sérstaklega talað um að efla útgjöld í almennri sjúkrahúsþjónustu, sem er þjónustan sem heilbrigðisstofnanir úti á landi veita fyrst og fremst. Ekkert er rætt um fjáraukningu þar.

Síðan þegar litið er í næsta kafla, fjármögnunarkafla heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa, er heldur ekki talað um aukin útgjöld til sérlækninga á heilbrigðisstofnunum þar. Ef samkvæmt þessu á að setja meira fjármagn í aðgengi að sérfræðingum á Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri og síðan að auka aðgengið á sjúkrahúsum og öðrum heilbrigðisstofnunum, án þess að rætt sé um sérstakt viðbótarfjármagn, er eðlilegt að draga þá ályktun að einhvers konar tilhliðrun eigi að eiga sér stað sem ekki sjáist í áætluninni.

Síðan búum við við þann veruleika að sjálfstæðir sérfræðingar hafa verið samningslausir nú um nokkurt skeið. Ég spyr því um samhengið þar á milli. Er markmiðið eða ætlunin að ná þeim markmiðum um aukna sérfræðiþjónustu á heilbrigðisstofnunum úti á landi, þar sem ekki er verið að setja viðbótarfjármagn inn, með því að hliðra þar til, þ.e. að draga úr þjónustu sjálfstætt starfandi lækna? Er það ástæðan fyrir því að ekki hafa verið kláraðir samningar við þá? (Forseti hringir.) Er þessi aukning tilfærsla frá sjálfstætt starfandi yfir í ríkisrekin sjúkrahús úti á landi?