149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:13]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Svarið er: Það er ekki hugsunin, alls ekki. Það er þannig að við áttum í ráðuneytinu fundi með læknum á hinum opinberu heilbrigðisstofnunum og læknum sem starfa að stórum hluta á grundvelli samnings við Sjúkratryggingar Íslands um aðgengi almennings úti um hinar dreifðu byggðir að sérfræðilæknum. Það var á grundvelli þeirrar greiningar sem þá hafði farið fram í ráðuneytinu sem snerist um að draga upp mynd af því hvaða sérgreinar væru aðgengilegar á hvaða svæði. Það er töluvert mismunandi hvaða sérgreinar eru aðgengilegar á hverju svæði. Og þá vildum við sem heilbrigðisyfirvöld spyrja okkur: Hvaða sérgreinar eru það sem okkur finnst að allir eigi að geta notið í heimabyggð með einhverju móti?

Við getum listað það upp að það eigi að vera augnlæknar, háls-, nef- og eyrnalæknar, barnalæknar o.s.frv. Það geta verið einhverjar tilteknar sérgreinar af þeim 32 sem eru núna í samningaviðræðum við Sjúkratryggingar Íslands.

Það aðgengi er óháð því með hvaða hætti það næst, hvort það næst með því að viðkomandi sérfræðingur sé ráðinn á viðkomandi heilbrigðisstofnun í viðkomandi umdæmi, hvort það er gert með sérstökum samningi við Landspítalann eða Sjúkrahúsið á Akureyri eða hvort það er hluti af samningi við heilbrigðisfyrirtæki sem semur við Sjúkratryggingar Íslands, að samningurinn skuli fela það í sér. Það er hluti af mínum samningsmarkmiðum við sérgreinalækna að þetta umfjöllunarefni sé undir, þ.e. að viðkomandi sé ekki alveg í sjálfsvald sett hvar hann sinnir sinni starfsemi heldur þurfum við að gæta að þessari þekju, ef svo má að orði komast, þannig að við tryggjum jafnara aðgengi að sérgreinum, óháð búsetu.