149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:15]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svarið og áhugavert verður að fylgjast með þessu og ég vona sannarlega að saman náist með þessum aðilum. Þetta er mjög mikilvæg þjónusta og mikilvægt púsl í allri þessari risamynd sem hæstv. ráðherra hefur á sinni könnu.

Mig langar að tala um jafnt aðgengi. Í upphafi kaflans um heilbrigðismál er vísað í þingsályktunartillögu um heilbrigðisstefnuna sem velferðarnefnd er nú með til umfjöllunar. Mig langar að spyrja nánar út í þá framtíðarsýn heilbrigðisráðherra sem kemur fram í kaflanum Skilvirk þjónustukaup og hljóðar einhvern veginn svo, með leyfi forseta:

„Ef forgangsröðun er nauðsynleg verði sjúklingar með mesta þörf og verst lífskjör settir í forgang.“

Ég spyr ráðherra: Hvað felst í verst lífskjör? Eru það þeir tekjulægri, eru þeir settir í forgang í nýrri framtíðarsýn heilbrigðisráðherra? Er þá samhliða því verið að hugsa um kerfi þar sem þeir sem eru með bestu lífskjörin fara eitthvert annað? Hvernig samræmist þessi framtíðarsýn, ef hún er rétt lesin hjá mér, lögum sem kveða á um jafnan aðgang, óháð efnahag? (Forseti hringir.)

Og ef ég er að lesa rangt í ætla ég vinsamlega að benda á að ég er ekki ein um það, heldur hef ég fengið þessa útskýringu frá aðstoðarmönnum hæstv. ráðherra, að það sé vissulega átt við þá tekjulægri í forgang.