149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:17]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega alþekkt í sjálfu sér, sérstaklega þegar verið er að tala um greiðslukerfi og greiðsluþátttökukerfi, að viðkvæmir hópar séu án gjaldtöku í kerfum. Við erum t.d. að breyta því núna, þ.e. um síðustu áramót, að lífeyrisþegar borga ekki í heilsugæslunni og það þýðir að við erum að styðja við að tryggja aðgengi viðkvæmra hópa að heilbrigðisþjónustunni, óháð efnahag.

Það er hins vegar rétt ábending hjá hv. þingmanni að það þýðir að þeir sem eru efnameiri, þeir sem eru vinnandi, þeir sem eru yngri eða hvað þeir eru, þeir greiða.

Við erum núna með kerfi … (Gripið fram í: … forgangsröðun að þjónustunni, ekki greiðslukerfi.) Já, en það er með þeim hætti sem ég skil þetta. Þetta snýst í raun og veru um það hvernig við stýrum aðgengi að heilbrigðisþjónustunni, mögulega, með greiðsluþátttökukerfum.

Það er líka eitt sem við þurfum að gera, virðulegur forseti, og það er eitthvað sem við höfum ekki gert á Íslandi, og það er að fara í víðtæka (Forseti hringir.) vinnu um gildi og forgangsröðun. Við vitum að heilbrigðiskerfi er alltaf þannig að það getur í rauninni vel nýtt meira fjármagn.