149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:18]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég kem hér eina ferðina enn og tala um mitt hjartans mál sem er staða SÁÁ og sjúkrahússins Vogs. Ég efa ekki að mörg ljós eru kveikt hjá ráðherranum. En hvað þennan málaflokk varðar hefur mér stundum fundist að öll ljós séu kveikt en enginn heima.

Ég hafði miklar væntingar. Ég veit að hæstv. ráðherra er alger valkyrja og dugleg og atorkusöm í því sem hún tekur sér fyrir hendur. En það er sárt að þurfa að koma hér ítrekað og spyrja um sama hlutinn, vitandi það að við horfum upp á svo mikla vesöld. Fyrir viku horfðum við á sjónvarpsþáttinn Kveik. Við fengum að vita að 34 ungmenni tóku líf sitt á þeim tíma, tvö ungmenni með 10 daga millibili inni á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Við vitum að það eru 600 manns á biðlista eftir innlögn á Vog. Við vitum að framreiknað til dagsins í dag hafa framlög til Vogs lækkað um 6% eða um 40 millj. kr. Við vitum að þeir eru að fara að fækka innlögnum um 400 á árinu, úr 2.200 niður í 1.800.

Mér finnst staðan grafalvarleg. Þó að við hefðum í raun getað lagt meira til en 150 millj. kr. þá var það gert af góðum vilja, sem ég hélt að við værum öll sammála um. Nú spyr ég og vísa til þess að hæstv. heilbrigðisráðherra talar um rétta þjónusta á réttum stað: Telur hæstv. heilbrigðisráðherra að við höfum einhvers staðar betri aðgang og betri þjónustu, umönnun, þekkingu og reynslu, en á sjúkrahúsinu Vogi til að taka á móti fárveikum fíklum og áfengissjúklingum þessa lands?