149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:20]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Eins og áður hefur komið fram í orðaskiptum okkar hv. þingmanns er það svo að þær 150 milljónir sem hv. fjárlaganefnd lagði til við Alþingi við afgreiðslu fjárlaga nú síðast voru eyrnamerktar á tvennan hátt. Annars vegar tiltekinni þjónustu, sem var göngudeildarþjónusta. Hins vegar tilteknum þjónustuveitanda, sem var SÁÁ. Þetta er það sem fjárlaganefnd segir og Alþingi samþykkir. Þetta er veganestið sem ég hef frá Alþingi þegar ég fel Sjúkratryggingum Íslands að ganga til samninga — um hvað? Við SÁÁ um göngudeildarþjónustu, bæði á Akureyri og í Reykjavík.

Þá verðum við að halda því til haga að göngudeildarþjónustan á Akureyri hefur ekki verið fjármögnuð hingað til af opinberu fé nema með stuðningi frá Akureyrarbæ — frá heimamönnum — en annars í gegnum sjálfsaflafé SÁÁ. Þannig hefur það verið. Þannig að það er í fyrsta skipti núna, virðulegur forseti, sem Alþingi viðurkennir það með afgerandi hætti og samþykkt fjárlaga hér að mikilvægt sé að sinna göngudeildarþjónustu við þá sem eru haldnir áfengisfíkn eða öðrum fíknisjúkdómum. Hvaða breytingu erum við þá að tala um? Við erum að tala um að Alþingi sé sammála heilbrigðisyfirvöldum og þeim aðilum sem best þekkja til um að fjölbreytt úrræði þurfi fyrir þennan fjölbreytta hóp. Það er ekki þannig að eitt tiltekið úrræði henti öllum, eitt tiltekið og dýrt úrræði.

Hv. þingmaður ræðir líka hér um sjálfsvíg. Sjálfsvígsforvarnir eru í brennidepli hjá embætti landlæknis og við það hefur sérstaklega verið stutt. Þar eigum við aldeilis frábæra vinnu þeirra sem best þekkja til í þeim viðkvæma málaflokki. Ég kem að smáatriðunum í mínu síðara svari.