149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:23]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég sakna þess að hafa ekki fengið afgerandi svar hæstv. heilbrigðisráðherra, sem ég þakka fyrir svarið, við þeirri spurningu hvort hún telji betri þjónustu að fá annars staðar en á sjúkrahúsinu Vogi, hvað viðkemur bráðaþjónustu við fíkla og áfengissjúklinga. Okkur verður tíðrætt um þessar 150 milljónir og tölum um göngudeildarþjónustu og um sjálfsaflafé SÁÁ — það var í kringum 2014, skilst mér, sem þeir náðu ekki neinum samningum við Sjúkratryggingar Íslands um þessa göngudeildarþjónustu. En spurningin er þessi, og ég vildi líka gjarnan fá svar við spurningunni sem ég bar upp á undan: Hverjir nýta göngudeildarþjónustuna? Eru það ekki aðallega þeir sem eru búnir að fara í hina eiginlegu sjúkrameðferð á undan? Í 98% tilvika eru það nákvæmlega þeir. Það er ekki vaninn að fara í göngudeildarþjónustu áður en farið er í afeitrun. Það er ekki flóknara en það.