149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:24]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Það er nú allur gangur á því hvaða þjónusta það er sem fólk er að sækja á göngudeildir. Fyrst hv. þingmaður spyr hvort einhver sé betur til þess fallin að veita þjónustuna sem SÁÁ hefur verið að veita þá er sú þekking og reynsla sem SÁÁ hefur byggt upp og safnað á undanförnum áratugum algerlega ómetanleg. Það eru engar efasemdir í mínum huga um það. Og mikilvægi þess að byggja áfram á þeirri miklu þekkingu sem þar er.

En hins vegar hef ég ákveðið, vegna þess að SÁÁ baðst í raun undan því að sinna börnum og ungmennum undir 18 ára aldri, að færa þjónustuna við þann viðkvæma hóp frá SÁÁ til Landspítalans, sem stuðlar að samfellu í þjónustunni við börnin, með samspili fíkni- og geðmeðferðar. Ég er sannfærð um að fagfólkið á Landspítalann gerir það vel.