149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:31]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ein helsta áskorun heilbrigðiskerfisins er að manna heilbrigðisstofnanir landsins. Heilbrigðisstéttin er að stórum hluta kvennastétt. Yfir 98% hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða eru konur. Hér á landi er yfirvinna hjúkrunarfræðinga 16% af hlutfalli heildarlauna en hjá hinum Norðurlandaþjóðunum 0–4%.

Ákveðinn flótti hefur einkennt þessa stétt enda er um mjög krefjandi og þung störf að ræða og þar verða stjórnvöld að bretta upp ermar og gera betur. Við verðum að gera starfsumhverfið mun betra til að tryggja mönnun innan heilbrigðisgeirans enda hefur Ríkisendurskoðun í stjórnsýsluúttekt sinni bent á að álag í þessum geira, í heilbrigðisstörfum, muni bara koma til með að aukast á næstu árum, m.a. vegna hækkandi lífaldurs þjóðarinnar.

Fram hefur komið að stjórnvöld hafa hafið vinnu við að taka á mönnun. En svo birtist fjármálaáætlun. Hún talar nú ekki beint inn í þessa vinnu af því að stóru kvennastéttirnar, sem margar hverjar hafa þurft að bíða lengi eftir réttlætinu, eiga samkvæmt áætlun ekki að hækka um nema 3,9%, sem þýðir raunhækkun launa upp á 0,5% milli áranna 2019 og 2020. Vert er að minna á að þessar stéttir eru einnig með lausa samninga á næstunni en helstu ástæður sem þeir sem hafa menntað sig í þessum geira nefna fyrir því að hverfa til annarra starfa, eru einmitt lág laun, óviðunandi vinnuumhverfi og of mikið álag.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra um þessi áform ríkisstjórnarinnar um 0,5% raunhækkun, hvort hún telji að þau séu fallin til þess að halda fólki í þessum störfum eða hvetja fólk til þess að starfa í þessum geira. Og að öðru leyti hvort hún hafi ekki áhyggjur af mönnuninni í heilbrigðisgeiranum.