149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:33]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Þar sem hv. þingmaður spyr um samsetningu launanna er það rétt að á Íslandi er yfirvinna og vaktaálag óeðlilega hár hluti af heildarlaunum. Samanburðurinn er verulega óhagstæður fyrir Ísland og þetta leiðir auðvitað til verulegs álags og streitu. Við erum sannarlega ekki að spara með þessari samsetningu launa á Íslandi.

Ég hef skrifað öllum heilbrigðisstofnunum á Íslandi og óskað eftir viðbrögðum við tilteknum tillögum til þess að bæta starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga sérstaklega, og raunar sjúkraliða líka, enda þarf að skoða allar hliðar starfskjara, ekki bara það sem lýtur að launaumslaginu þó að það sé sannarlega það sem mestu máli skiptir þegar öllu er á botninn hvolft.

Ég verð að segja að ég furða mig á málflutningi sem Samfylkingin hefur staðið fyrir sem lætur að því liggja að það sé komin niðurstaða í kjarasamninga heilu stéttanna og þá sérstaklega kvennastétta og tala þar með niður væntingar þeirra stétta til kjarabóta þegar samningar eru lausir. Það væri undarleg nálgun ríkisins í kjaraviðræðum að stimpla það inn í fjármálaáætlun hver niðurstaða kjarasamninga ætti að vera. Ég vænti þess að sú áætlun sem hér liggur fyrir sé ein hlið málsins. Kjarasamningar eru auðvitað samningar þar sem báðir aðilar koma að borðinu og ljúka ekki málinu fyrr en báðir eru sáttir við niðurstöðuna. Það gildir um þessa kjarasamninga eins og aðra.