149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:35]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið, ráðherra sem hér í dag hefur hvort tveggja verið kölluð kletturinn í hafinu og ljósið í myrkrinu — einhvers konar ljósaklettur þá í þessu öllu saman. Ég finn að henni er ekki sama um þann málaflokk sem hún fjallar um, en það er okkur í Samfylkingunni hreint ekki heldur. Það erum ekki við sem tölum niður væntingar varðandi kjarasamninga heldur erum við einfaldlega að vísa í það sem kemur fram í fjármálaáætlun og ekki síst í orð hæstv. fjármálaráðherra, sem segir bara: Ef það á að fara umfram 0,5% raunhækkun þarf að skera niður annars staðar.

Nú fer hæstv. heilbrigðisráðherra með langstærsta og fjárfrekasta málaflokkinn og þess vegna drögum við þessar ályktanir af orðum þeirra sem hafa talað fyrir hönd ríkisstjórnarinnar út af fjármálaáætlun. En tíminn er því miður á þrotum og ég hef ekki tíma fyrir næstu spurningu.