149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:37]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Á blaðsíðu 374 í fjármálaáætlun er yfirlit um kyngreind gögn um heilbrigðisþjónustu þar sem ýmsum hættum sem snúa að heilbrigði karla er lýst, m.a. vegna aukinnar tíðni áhættuhegðunar karla samanborið við konur, t.d. hvað varðar reykingar, drykkju og meiri tregðu til að leita sér hjálpar þegar á bjátar, sér í lagi andlega.

Ég fagna því að landlæknisembættið ætli sér að rannsaka þessa þætti nánar og mér finnst það verðugt verkefni.

En þessar athugasemdir leiða mig að því sem mér finnst vanta í áætlunina og það er skýr forgangsröðun í þágu þeirra sem eru í hvað mestum áhættuhópi, nú eða meðal viðkvæmustu hópanna, sér í lagi þegar kemur að geðheilbrigðisþjónustu.

Hér er ég sérstaklega að kalla eftir forgangsröðun í þágu geðheilbrigðisþjónustu og heildstæðri heilbrigðisþjónustu fyrir fanga, en eins og við hæstv. ráðherra vitum og höfum rætt eru frelsissviptir einstaklingar í gríðarlegum áhættuhópi og þurfa að mínu viti miklu meiri þjónustu en ég veit að til stendur að veita. Þessar 10% stöður sálfræðinga — ég held að það þurfi að gera miklu betur þegar kemur að þessum hópi. Það hefur dregist allt of lengi.

Svo við tölum líka aðeins um annan hóp, öllu stærri, unga fólkið okkar, sér í lagi framhaldsskólanema sem hafa eindregið óskað þess að fá sálfræðinga í framhaldsskóla, minnist ég m.a. opins og einlægs bréfs Gunnhildar Fríðu Hallgrímsdóttur, formanns sambands íslenskra framhaldsskólanema, til Lilju Alfreðsdóttur, hæstv. menntamálaráðherra, þar sem hún hvatti hana til að vinna náið með hæstv. heilbrigðisráðherra til að koma þessu á.

Ég sé tæpt á þessum atriðum í fjármálaáætluninni. Hins vegar finnst þeirra ekki stað í markmiðum og aðgerðum. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hver eru markmiðin og hverjar verða aðgerðirnar til að vinna að aukinni þjónustu fyrir þessa viðkvæmu og áhættusömu hópa?