149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:39]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar sem eru gríðarlega mikilvægar. Við deilum áhyggjum af og áhuga á þessum viðkvæmustu hópum.

Hv. þingmaður nefndi 10% starfshlutfall. Ég hef ekki haft ráðrúm til þess enn þá að greina þinginu frá því með hvaða hætti verður búið um heilbrigðisþjónustu fyrir fanga með viðunandi hætti, að mínu mati. En við lítum svo á að endapunkturinn sé sá — og ég vil sjá að við komumst þangað innan árs — að heilsugæslulæknisþjónusta sé veitt alls staðar í fangelsum og að heilsugæslulæknar sem þar sinna föngum vísi þeim síðan á sérhæft geðteymi á hverjum stað. Það geðteymi er sett saman af geðhjúkrunarfræðingi, geðlækni og sálfræðingi.

Þetta teymi setur upp einstaklingsmiðað meðferðarplan fyrir hvern og einn. Sumir þurfa viðtöl. Sumir þurfa mörg, sumir þurfa færri. Sumir þurfa lyf o.s.frv. Það skiptir gríðarlegu máli, ef fangi á að vera móttækilegur fyrir betrun, að viðkomandi njóti fullnægjandi heilbrigðisþjónustu. Og fangar eiga rétt á fullnægjandi heilbrigðisþjónustu eins og allir aðrir.

Þetta er módel sem við munum sjá fyrst verða til á Hólmsheiði og síðan í öllum hinum fangelsunum eftir því sem verkinu vindur fram. Ég var á dögunum að ganga frá samningsmarkmiðum hvað þetta varðar þannig að það á að verða í lagi gagnvart umboðsmanni og pyndingarnefndinni.

Hv. þingmaður spyr líka um framhaldsskólanema og það er rétt sem kemur fram að ég og hæstv. menntamálaráðherra höfum líka verið að ræða þau mál. Það eru mjög mismunandi væntingar eftir framhaldsskólum og mjög mismunandi staða líka eftir framhaldsskólum. Sums staðar eru sálfræðingar, sums staðar eru hjúkrunarfræðingar sem eru að sinna þessu og sums staðar þurfum við að kynna betur og opna betur (Forseti hringir.) möguleika heilsugæslunnar og kynna betur þá staðreynd að það eru sálfræðingar sem eru að taka þar til starfa og geta sinnt þessu að hluta.