149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:42]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið og vil kannski í seinni ræðu minni koma með smá svona bland í poka.

Í fyrsta lagi hvað varðar fangana er ánægjulegt að heyra að það eigi að fá heildstæða nálgun að þessu. Ég veit líka að fangelsismálayfirvöld hafa lagt mikla áherslu á að þær stofnanir sem sinna þessu hafi til þess nægt fjármagn og líti ekki á það sem einhverja afgangsstærð sem er svo einhvern veginn hægt að óvart vanrækja, án þess að það sé endilega einhver ásetningur á bak við það. En þetta er náttúrlega erfiður málaflokkur og erfitt að sinna honum. Ef það er ekki nægur peningur á bak við hann skapast ákveðnar hættur um að hann renni út í sandinn.

Ég vil bara spyrja þess vegna, vegna þess að ég sé þetta ekki í aðgerðunum: Er ekki örugglega tryggt að það sé nóg fjármagn til að sinna bara þessu?

Nú á ég 15 sekúndur eftir þannig að ég ætla bara að skjóta að einni laufléttri hérna í lokin og hún varðar dánaraðstoð og líknandi meðferð. Það hefur komið fram að þetta er mál sem ég og hæstv. forseti höfum áhuga á og snýr að því að leyfa dánaraðstoð.

En áður en að því kemur er líka mikilvægt að komið verði á heildstæðri stefnu um líknandi (Forseti hringir.) meðferð. Þetta er eitthvað sem hefur verið talað um að vanti og ég velti fyrir mér hvort standi til.