149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:43]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Fyrst varðandi það hvort tryggt sé að fjármagn sé eyrnamerkt sérstaklega fyrir þennan hóp. Já, það er svo. Á þessu ári — og ég veit að hv. þingmaður hefur tekið eftir því — var ráðstafað á sérstökum blaðamannafundi fjármagni til geðheilsuteyma úti um allt land. Þar var í raun og veru haldið til hliðar úr þeim potti 30 milljónum til að sinna sérstaklega geðheilbrigðismálum fanga og til viðbótar eru 25 milljónir eyrnamerktar fyrir Heilbrigðisstofnun Suðurlands sem hefur verið að sinna Litla-Hrauni en ekki náð að ráða geðlækni í það starf.

Þannig að við erum að tala um 55 milljónir sem eru eyrnamerktar þarna og verða það áfram. Við erum að tala um að þetta er samningur á milli sjúkratrygginga og viðkomandi heilbrigðisstofnana sem er þannig að það er klárt til hvers er ætlast. Það liggur algerlega fyrir.

Hv. þingmaður spyr um lífslokameðferð og það náttúrlega bara mál sem þarf lengri tíma en sex sekúndur til að ræða. En varðandi líknandi meðferð og lífslokameðferð almennt, eða sérstaklega lífslíknandi meðferð, erum við með gott stefnuskjal fyrir Norður- og Austurland og Vestfirði (Forseti hringir.) raunar líka og þurfum að setja saman sambærilega sýn, framtíðarsýn, fyrir Suður- og Vesturland. Það er í farvatninu.