149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:45]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Aðeins út af forgangsröðunarumræðunni áðan. Mig langar að segja að það ríkir samfélagsleg sátt um að greiðsluþátttaka fari eftir tekjum og að viðkvæmir hópar séu valdaðir þar. En það er af og frá að hægt sé að túlka það sem svo að með heitinu „skilvirk þjónustukaup“ sé átt við greiðsluþátttökuna. Það er samkvæmt orðanna hljóðan verið að tala um að ef ekki er keypt nóg af þjónustunni þarf að forgangsraða henni og samkvæmt þessu á að forgangsraða henni eftir tekjum. Það brýtur einfaldlega gegn lögum um jafnan aðgang, óháð efnahag. Það er ekkert betra að brjóta á millitekjufólki og hátekjufólki. Það er jafn bullandi ólöglegt.

En ég ætlaði hins vegar að tala um annað. Ég ætlaði að koma inn á stöðu heilbrigðisvísinda og tengja þar nýsköpun og menntun, sem eru mikil áherslumál hæstv. heilbrigðisráðherra. Samkvæmt tölulegum upplýsingum er Landspítalinn á niðurleið varðandi rannsóknir og fær minna en önnur háskólasjúkrahús á Norðurlöndum. Ég vísa í yfirlit um vísindalega birtar rannsóknir spítalans síðastliðin 15 á þar sem m.a. kemur fram að spítalinn er í vaxandi mæli samstarfsaðili sem útvegar gögn en ekki sá aðili sem leiðir. Rannsóknarniðurstöður Landspítalans vekja minni athygli nú en þær gerðu fyrir 10 árum og vísbendingar eru um að leiðin sé niður á við.

Þetta er þróun sem er ekki í samræmi við það sem er að gerast hjá háskólasjúkrahúsum t.d. á Norðurlöndum, sem við berum okkur gjarnan saman við. Í ljósi þess að það er, held ég, vel viðurkennt að gæði vísindastarfs og síðan klínískrar þjónustu haldast í hendur langar mig að fá sýn ráðherra á það, biðja hann að túlka fyrir mig fjármálaáætlunin hér. Hvað er verið að gera til að efla vísindastarf Landspítala – háskólasjúkrahúss?