149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:46]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Fyrst vil ég segja varðandi ábendingu hv. þingmanns um forgangsröðun á aðgengi að heilbrigðsþjónustu að ég hef haft ráðrúm til að skoða þetta aðeins betur síðan að við töluðum saman hérna áðan og ég tel að orðalagið, eins og það er í drögunum, sé óheppilegt og að það þurfi að breyta því. Það sem mín meining snýst um lýtur að viðkvæmum hópum og greiðsluþátttöku. Svo það liggi algerlega fyrir.

Hv. þingmaður spyr um vísindastarf og hvernig megi tryggja að við sjáum meira vísindastarf á Landspítala. Það er sérstakt áhyggjuefni, eins og hv. þingmaður bendir á, að Landspítalinn hefur verið að missa flugið, ef svo má að orði komast, undanfarin ár í þessum efnum. Ekki síst er það áhyggjuefni vegna þess að um háskólasjúkrahús er að ræða, ekki bara sjúkrahús sem sinnir menntun heldur er líka um að ræða það að vera samkeppnisfær við háskólasjúkrahús í löndunum í kringum okkur um bestu mögulegu starfskrafta og vísindafólk.

Um þetta vil ég segja að innan ráðuneytisins hefur verið að störfum starfshópur um vísindastefnu. Að þeim hópi hafa aðgang þeir aðilar sem hafa haft veg og vanda af þessum málum hvað mest, bæði innan Landspítala, háskólasamfélagsins o.s.frv. Ég bíð eftir því að fá frá þessum hópi tillögur um það hvaða þættir það eru sem helst þarf þarna að gæta að.

Ég hef líka velt því fyrir mér hver staða heilbrigðisvísinda sé almennt — og þá er ég að tala um með aðgang að samkeppnissjóðum o.s.frv. — þegar við erum að ræða um þær gríðarlegu áskoranir sem eru í nánustu framtíð og lúta að siðferðislegum álitamálum og miklum framfaraskrefum í vísindum og tækni og kunna að kalla á algerlega nýjar spurningar og ný viðfangsefni í heilbrigðisvísindum. Þá þurfum við að vera vel búin að því er varðar (Forseti hringir.) vísindafólk.