149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:49]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Ég þakka ráðherra góð svör og tek undir og árétta bara að það er gríðarlega mikilvægt, og ég vona að það sé svo að innan þessarar fjármálaáætlunar, að stakkurinn sé skorinn þannig að ráðherra hafi svigrúm til að bæta í. Ég vil líka árétta, þó að ég hafi talað um Landspítalann áðan, að nú er heilsugæslan á flugi, miðað við það sem áður hefur verið. Það er mjög mikilvægt að þar sé líka svigrúm til rannsókna vegna þess að nýsköpun er ekki síður mikilvæg á þeim endanum, í alls kyns þjónustu o.s.frv.

Mig langar til að nota síðustu hálfu mínútuna í að tala um efnahagsástandið almennt. Nú er ný spá Arion banka frá því í morgun sem spáir 1–2% samdrætti í landsframleiðslu í ár. Í nóvember spáðu þeir 1% vexti. Þannig að það er breyting. Þetta er líka töluvert niður á við, 3%–4%, frá spá Hagstofunnar frá því í febrúar. Þannig að það eru klárlega blikur á lofti.

Nú stýrir hæstv. ráðherra málaflokki sem tekur til sín stóran hluta ríkisútgjalda. Það er ekki óeðlilegt að ætla að komi upp þörf á einhvers konar viðbrögðum við efnahagsástandinu sé horft til þessa málaflokks. Það veit hæstv. ráðherra jafn vel og ég. (Forseti hringir.)

Þá spyr ég: Þó svo að fjármálaáætlunin sé — og við höfum margoft bent á það — ansi bjartsýn, trúi ég ekki öðru en að til sitt plan B. Ég spyr hæstv. ráðherra um plan B— og jafnvel ekki síður þá með tilliti til þjóðarsjóðsins sem á að fjármagna þessar hjúkrunarheimilisbyggingar.