149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:50]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Sú staðreynd var náttúrlega rædd hér töluvert í gær í andsvörum við hæstv. fjármálaráðherra að einu forsendurnar sem við getum lagt til grundvallar, eiginlega sama á hvaða tíma það er, eru núverandi forsendur Hagstofunnar. Síðan getum við farið að velta vöngum yfir því hér inni í þingsal að það séu ýmsar blikur á lofti o.s.frv.

Eins og hv. þingmaður áttar sig örugglega á er í huga heilbrigðisráðherra á hverjum tíma ákveðin forgangsröðun. Sú forgangsröðun er númer eitt að heilbrigðismál séu í forgangi. Númer tvö er sú forgangsröðun að þjónustan sé mikilvægust, þ.e. sú þjónusta sem er aðgengileg öllum. Þá erum við að tala um fyrst og fremst þriðja stigs þjónustuna og heilsugæsluna, sem eru auðvitað þeir þættir sem þjóna okkur öllum á öllum tímum, óháð efnahagsástandi.