149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:52]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að tala um fjárhagsáætlun til næstu ára. Þar stendur um heilbrigðismál: „Einnig er löng bið eftir geðheilbrigðisþjónustu, til dæmis þjónustu göngudeildar BUGL.“ Ég hef miklar áhyggjur af því að enn skuli vera langir biðlistar í barnageðlækningum. Við verðum að sjá til þess að engin bið sé eftir slíkum lækningum vegna þess að það skilar sér inn í framtíðina.

Síðan er annað sem maður hefur áhyggjur af í sambandi við fjármálaáætlun, þ.e. að ekki virðist alveg vera tekið á því að nú er stór hópur heilbrigðisstarfsmanna að fara á eftirlaun, bæði hjúkrunarfólk og læknar, og það er þegar mikill skortur á hjúkrunarfræðingum. Ég vil því spyrja heilbrigðisráðherra hvernig hún ætlar að bregðast við þeim málum.

Síðan er það, sem er mjög metnaðarfullt, að nú er 90 daga hámarksbið eftir aðgerðum, liðskiptaaðgerðum og öðru, og ekki virðist heldur ganga nógu vel að stytta þá biðlista. Hvergi kemur fram hversu mikill sjúkrahúskostnaður er erlendis vegna þessara biðlista eða áætlanir um hann í framtíðinni. Það væri gaman að heyra um það. Og einnig í sambandi við lyfjakostnað. Þar eru mínar mestu áhyggjur af því að enn skuli vera svona gífurlegur lyfjakostnaður hjá þeim sem eru í krabbameinsmeðferð.

Ég vil spyrja hvaða lausn ráðherra sjái fyrir sér í þeim málum í framtíðinni og hvort það sé eitthvað gott þar á leiðinni.