149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:54]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningar hans.

Í fyrsta lagi varðandi langa bið eftir geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og ungmenni: Þar finnst mér skipta mjög miklu máli — ég veit ekki hvort það er að komast nægilega vel til skila — að ef við hugsum um heilbrigðiskerfið í þremur þrepum, þ.e. fyrsta þrepið eða fyrsta línan sé heilsugæslan, númer tvö séu sérfræðingar, sjálfstætt starfandi eða teymi eða mögulega heilbrigðisstofnanir, og þriðja línan eða þriðja stigs þjónustan sé hátæknisjúkrahús, hvort sem það er Landspítalinn eða Sjúkrahúsið á Akureyri, þá hefur það til skamms tíma verið þannig að þessi þrep hafa fyrst og fremst, og stundum eingöngu, átt við líkamlega heilsu.

Nú erum við að breyta heilbrigðiskerfinu. Þetta er kerfisbreyting. Við erum að breyta heilbrigðiskerfinu þannig að nú erum við að tryggja að umfjöllun um andlega heilsu sé fyrir hendi með sama hætti og umfjöllun um líkamlega heilsu á fyrsta stigi þjónustunnar, þ.e. í heilsugæslunni sjálfri. Þegar þeirri þjónustu sleppir er hægt að vísa í geðteymin sem í lok þessa árs verða til um allt land. Og þegar við erum komin þaðan og erum enn í vanda er komið að sérhæfðum sjúkrahúsum, hvort sem það er BUGL fyrir börn og ungmenni eða geðdeildir fyrir fólk sem er orðið 18 ára.

Um leið og við erum komin með kerfi sem tekur á geðheilbrigðisvanda á öllum stigum og farin að hugsa um forvarnir í geðheilbrigðismálum í alvörunni, þannig að við séum farin að hugsa um raunveruleg lífsgæði með styttingu vinnuvikunnar og að við endurmetum lífsgæðakapphlaupið o.s.frv., (Forseti hringir.) þá erum við líka farin að tala um að við séum með hagstæðara umhverfi til að fleirum líði betur.

Virðulegi forseti. Ég svara vonandi hinum spurningunum í mínu síðara svari.