149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:56]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég ætla að koma með eina spurningu eða viðbót við þetta. Það er að fyrsti viðkomustaður á að vera heilsugæslan en það er mánaðarbið eftir að komast að þegar tími er pantaður. Þegar fólk fær loksins SMS, áminningu um tímann, man það bara eiginlega ekkert eftir hvað það ætlaði að tala um við lækninn eða er hreinlega of seint að nýta tímann.

Það kom mér á óvart að hvergi er minnst á heilsuvera.is. í fjármálaáætluninni. Því að það er bara snilldartæki. Væri ekki hægt að setja peninga í að kynna það og auglýsa og kenna fólki á að nota þetta? Eins og ég segi, eftir að ég fór að nota vefsíðuna hef ég á tilfinningunni að ég sé með heimilislækninn í símanum og geti náð til hans innan sólarhrings. Þetta væri mjög gott.

En svo ætla ég að vona að ráðherra geti svarað einhverjum af hinum spurningunum líka.