149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:57]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Fyrst um aðgengið að heilsugæslunni. Það er sannarlega þannig enn þá að löng bið er eftir tilteknum lækni, ef viðkomandi vill hitta tiltekinn lækni. Hins vegar erum við komin með vaktir og sums staðar er það þannig að það eru opnir tímar þar sem fólk kemur inn af götunni og getur fengið tíma hjá lækni án þess að þurfa að skrá sig inn. Hjúkrunarmóttaka er víðast hvar orðin að veruleika. Símatímar hjá hjúkrunarfræðingum, sem geta þá raðað inn á tiltekna tíma sem eru alltaf lausir fyrir hjúkrunarfræðinga, eru líka orðnir að veruleika mjög víða. Þetta aðgengi hefur því lagast mjög mikið.

Og það sem er svo mikilvægt að heilsugæslan er núna án gjaldtöku fyrir lífeyrisþega, sem þýðir að lífeyrisþegar geta núna í fyrsta skipti ekki bara fengið tíma hjá hjúkrunarfræðingi eða lækni heldur líka komist að hjá fleiri heilbrigðisstéttum til að fá lausn sinna mála.

Ég tek undir með hv. þingmanni hvað varðar vefsíðuna heilsuvera.is. Ég vona að fjallað sé um hana einhvers staðar í fjármálaáætluninni og ég held að það hljóti að vera.