149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:59]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég geri hér grein fyrir fjármálaáætlun næstu fimm ára hvað varðar þau fjögur málefnasvið sem undir mig heyra sem ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, þ.e. rannsóknir, nýsköpun og þekkingargreinar, ferðaþjónusta, orkumál, markaðseftirlit og neytendamál.

Óhætt er að segja að verið sé að efla öll þessi málefnasvið með beinum eða óbeinum hætti. Ég horfi þá ekki bara á fjárhagshliðina heldur ekki síður á stefnu, markmið og aðgerðir sem hér eru settar fram. Í ferðaþjónustu er sett fram framtíðarsýn um sjálfbæra atvinnugrein sem er í jafnvægi í efnahagslegu, umhverfislegu og samfélagslegu tilliti. Meginmarkmiðin eru þrjú og lúta að þessum þremur stoðum sjálfbærni.

Undirbúningsvinna við gerð langtímastefnu í ferðaþjónustu stendur yfir, annars vegar með viðamiklu verkefni þar sem metið er álag umhverfis, innviða og samfélags af völdum ferðamanna og hins vegar með mótun leiðarljóss í ferðaþjónustu til ársins 2030. Aðrar áherslur í verkefnum og aðgerðum eru m.a. að setja ramma um forgangsröðun við öflun, greiningu og hagnýtingu gagna, styðja við markaðsstofur landshlutanna og þróun þeirra, greina þolmörk náttúru, samfélags og efnahagslífs, skerpa á reglum um skammtímaleigu og efla eftirlit með leyfislausri starfsemi, kanna leiðir til gjaldtöku, skilgreina og byggja upp fyrirmyndaráfangastaði og fara í samkeppnismat á regluverki ferðaþjónustunnar.

Fjárveitingar til ferðaþjónustu hækkuðu mjög mikið í fjárlögum ársins 2018 og gert er ráð fyrir að sú hækkun haldi sér að mestu, nema hvað varðar framlög til flugþróunarsjóðs en þau framlög voru tímabundin. Áfram verður þó hægt að sækja um framlög í sjóðinn en framlög hans munu flytjast á milli ára ef sjóðurinn nær ekki að ráðstafa þeim. Það hefur verið raunin hingað til. Fjármunirnir hafa ekki allir farið úr sjóðnum og þess vegna eru einfaldlega áfram nægir fjármunir til í sjóðnum þrátt fyrir að hið tímabundna framlag sé ekki lengur í áætluninni.

Rétt er að benda á að fjárframlög til samgöngumála aukast verulega sem mun koma ferðaþjónustunni til góða, sérstaklega þegar kemur að dreifingu ferðamanna um landið, auk þess sem landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum, sem heyrir undir umhverfisráðherra, styrkist enn frekar.

Undanfarið hefur verið tekið á svartri atvinnustarfsemi í greininni. Þar ber hæst átak í eftirliti með heimagistingu sem hefur skilað verulegum árangri í skráningum, auk þess að hafa haft þau óbeinu áhrif að liðka til á húsnæðismarkaði. Þessu verkefni verður haldið áfram.

Í orkumálum setjum við fram þá framtíðarsýn að Ísland sé leiðandi í þróun og nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa á grunni þekkingar, fagmennsku og sérstöðu okkar orkuauðlinda. Meginmarkmiðið er aukin samkeppnishæfni orkumarkaðar á grunni efnahagslegs, umhverfislegs og samfélagslegs jafnvægis. Sérstök áhersla er lögð á samspil byggðamála og orkumála, að tryggja afhendingaröryggi raforku á landsvísu og jöfnun orkukostnaðar.

Viðamesta verkefni málefnasviðsins er gerð langtímaorkustefnu fyrir Ísland, áframhald á eflingu orkuskipta, jafnt á sjó sem á landi, átak í þrífösun rafmagns og jöfnun orkukostnaðar á milli dreifbýlis og þéttbýlis. Ekki er um að ræða verulegar breytingar á útgjöldum til málaflokksins en forgangsraða verður innan málaflokksins til fjölmargra verkefna. Má þar nefna átaksverkefni til að hraða þrífösun rafmagns, einföldun leyfisveitingaferla vegna framkvæmda og sérstaka yfirferð á regluverki vindorku.

Á málefnasviði 7 eru þau málefni sem heyra undir mig, nýsköpun, samkeppni og þekkingargreinar. Hér er sett fram sú framtíðarsýn fyrir málefnasviðið í heild að Ísland verði leiðandi á sviði rannsókna og þekkingar og það markmið að hér verði alþjóðlega samkeppnishæft umhverfi rannsókna og nýsköpunar. Málaflokkurinn hefur fengið stóraukin framlög á undanförnum árum og munar þar langmest um aukin framlög í Tækniþróunarsjóð og hækkun á endurgreiðslum vegna rannsókna og þróunarverkefna. Þessir tveir þættir hækkuðu um 80% á milli áranna 2015 og 2018. Það er vissulega mikil hækkun en við ætlum að gera enn betur. Í samræmi við stjórnarsáttmálann verða endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar stórauknar frá og með árinu 2020. Þá er gert ráð fyrir að stofnaður verði fjárfestingarsjóður sem hefur það hlutverk að fjárfesta í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Á þessu fimm ára tímabili er þannig ætlað að bæta verulega við eða um tæpa 10 milljarða á næstu fimm árum. Lagt er upp með að fjárfestingarsjóður í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum geti, að uppfylltum tilteknum skilyrðum, óskað eftir mótframlagi frá stjórnvöldum. Tilgangurinn með slíkri aðkomu ríkisins er að stuðla að mótun og þroska frumtaksfjárfestingarsjóða og stuðla að því að einkafjárfestar geti tekið aukinn þátt í fjárfestingum í nýsköpunar- og sprotasjóðum.

Framtíðarsýn okkar a málefnasviði 16, markaðseftirlit, neytendamál og stjórnsýsla atvinnumála, snýst um skilvirka efnahagsstarfsemi og velferð á grunni stöðugleika, virkrar samkeppni, gagnsæis og heilbrigðra viðskiptahátta. Meginmarkmið málefnasviðsins er alþjóðleg samkeppnishæfni atvinnulífs sem byggist á efnahagslegu, umhverfislegu og samfélagslegu jafnvægi. Þar eru settar fram aðgerðir sem stuðla að skilvirkri stjórnsýslu og einföldun regluverks og má þar skoða sérstaklega málsmeðferðartíma áfrýjunarnefndar (Forseti hringir.) neytendamála og áfrýjunarnefndar samkeppnismála með það að markmiði að stytta málsmeðferðartíma. Einnig mun áfram verða unnið að (Forseti hringir.) framkvæmd samkeppnismats, eins og ég nefndi áður, í samvinnu við OECD, en það verkefni er nýlega hafið.