149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:07]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Svarið við því er: Já, ég sé fyrir mér að hægt sé að koma til móts við þá þörf. Bæði erum við með Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, þar sem eru mörghundruð milljónir. Það er samkeppnissjóður þannig að þangað geta sveitarfélög sótt um styrki til uppbyggingar á alls kyns innviðum. Svo erum við með landsáætlunina sem heyrir undir umhverfisráðherra þar sem er annars vegar þessi tólf ára langtímasýn og svo þriggja ára áætlun hverju sinni. Við höfum sett verulega aukna fjármuni í bæði áætlunina og sjóðinn.

Almennt er ég þeirrar skoðunar að við þurfum að tryggja að þessi svæði verði líka nægilega efnahagslega sjálfbær til að meta þörf fyrir ákveðna uppbyggingu og hafi þá sjálf möguleika á því að taka gjald, hvort sem það er af ferðamönnum beint eða af fyrirtækjum, til að afla sér fjár til þess að byggja upp, þannig að það sé ekki eingöngu bundið í fjárlög hvort t.d. gestastofa kosti 300 millj. kr. eða 600, heldur geti svæðin sjálf og fólkið úti á svæðunum metið þörf fyrir hvers kyns innviði, hvað þeir eru þá íburðarmiklir eða hvað, og hafi þá sjálft færi á því að sækja fé til þess að gera það. Það þarf auðvitað að vera innan allra eðlilegra marka og ákvarðanir teknar með gagnsæjum hætti svo að það sé alveg augljóst fyrir hvað er verið að rukka.

Hvað varðar framtíðina er ég almennt þeirrar skoðunar að við eigum að reyna að stuðla að frekari dreifingu og minni miðstýringu þegar kemur að uppbyggingu innviða í ferðaþjónustu, hvort sem það á við um einstaklinga sem vilja gera eitthvað eða sveitarfélög.