149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:11]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Frú forseti. Það má og á að hrósa fyrir það sem vel er gert. Vil ég fagna því hversu víða er komið inn á loftslagsmálin í fyrirliggjandi fjármálaáætlun, þó að ég persónulega hefði viljað ganga enn lengra til að bregðast við því neyðarástandi sem við í raun stöndum frammi fyrir.

Það er auðvitað jákvætt í því samhengi að setja eigi aukið fjármagn í nýsköpun og rannsóknir og þá sérstaklega með áherslu á grænar lausnir og í því samhengi líka að það eigi að stuðla að orkuskiptum hjá bílaleigunum sem er mjög spennandi verkefni. Það væri gaman að heyra ráðherra koma inn á hvernig hún sjái fyrir sér að stuðla að því.

Frú forseti. Einn af ásunum sem við Íslendingar eigum í erminni í baráttunni gegn útblæstri gróðurhúsalofttegunda er einmitt græna orkan okkar. Í kafla 15.1 er farið yfir þá alvarlegu stöðu sem er uppi varðandi orkuöryggi og afhendingaröryggi raforku á landsvísu. Ég sakna þess þó að sjá skýr verkefni sem leiða að lausn þeirrar stöðu. Það hljóta að vera nokkur vonbrigði því að staðreyndin er sú að á meðan þetta er staðan, að raforkuframleiðsla er dreifð um allt landið, er langt frá því að landsmenn sitji við sama borð þegar kemur að uppbyggingu atvinnutækifæra. Allt of víða er ekki hægt að taka á móti svo litlu sem 10 MW atvinnutækifærum vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem dreifikerfi raforku er í. Þá má einnig nefna það kolefnisspor sem felst í orkutapinu í kerfinu.

Ég spyr því ráðherra: Af hverju er ekki meiri áhersla á uppbyggingu dreifikerfisins í fjármálaáætluninni þrátt fyrir að það sé nefnt sem eitt af forgangsmálum stjórnvalda? Og finnst ráðherra ásættanlegt að skorið verði niður til málaflokks orkumála á næstu fimm árum? Mun ráðherra beita sér fyrir því að uppbyggingu raforkukerfisins verði hraðað svo um munar?