149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:13]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. Fyrst varðandi orkuskipti bílaleiga. Það er verkefni sem við erum með inni á borði hjá okkur í samstarfi við umhverfisráðuneytið og í rauninni í samstarfi við SAF. Það hefur breyst ótrúlega viðhorfið hjá ferðaþjónustunni almennt og bílaleigum sérstaklega þegar kemur að tækifærum þess að fara í orkuskipti þar. Auðvitað þarf það að vera á viðskiptalegum forsendum. Það er það sem setið hefur í mönnum og ég skil það mjög vel. En hérna erum við að forma í rauninni verkefni til að koma peningunum í vinnu í samstarfi við greinina og sömuleiðis sveitarfélög almennt. Við erum að forma ákveðið verkefni sem við komum vonandi sem allra fyrst til framkvæmda. Ég trúi því að við munum sjá miklar breytingar í þessa veru á komandi árum. Í þessu felast auðvitað líka mjög mikil tækifæri, m.a. út frá ásýnd Íslands sem ferðamannastaðar, að hér komi ferðamenn sem eru jafnvel í fyrsta skipti að prófa að keyra rafbíl og vonandi hefur það síðan góð áhrif þegar þeir fara aftur heim.

Til þess að þetta megi verða þurfa innviðir auðvitað að vera í lagi. Það er það sem við höfum verið að gera undanfarin ár og þar þarf að gera enn betur. Fólk þarf að geta keyrt hringinn í kringum landið o.s.frv., þannig að allt þetta helst í hendur. En ég trúi því að saman komumst við mun hraðar en þegar við erum of mikið að vinna hvert í sínu horni.

Hvað varðar flutnings- og dreifikerfi raforku er ég hjartanlega sammála öllu því sem hv. þingmaður kemur inn á, um mikilvægi þess og þörfina fyrir úrbætur. Orkustofnun telur að um 50 MW fari í raun til spillis, það sé sóun í kerfinu af því að það nær ekki að flytja þetta nægilega vel á milli staða. En hingað til má segja að það hafi kannski ekki verið fjármagnið sem hafi hindrað framganginn og hægt á öllu ferli heldur miklu frekar þessi málsmeðferð og skortur á sátt þegar kemur að því hvar línurnar eigi að liggja því alltaf þurfa þær að liggja einhvers staðar.