149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:15]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það hefði reyndar verið gaman að sjá verkefni í fjármálaáætlun sem snúa einmitt að því að einfalda regluverkið eða auðvelda málsmeðferðina. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli.

Mig langar aðeins að fara yfir í ferðaþjónustuna en eins og kemur fram í áætluninni hafa aðgerðir stjórnvalda síðustu ár m.a. miðað að því að dreifa ferðamönnum víðar um landið og um allt landið. Eftir því sem ég best veit er enn stefna ráðuneytisins að gera það. Það hlýtur að valda vonbrigðum að ákveðið er að halda ekki áfram með flugþróunarsjóð, eins og hæstv. ráðherra kom inn á áðan, þó að sannarlega séu enn þá einhverjir fjármunir eftir í sjóðnum. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort þetta sé til marks um stefnubreytingu hjá ríkisstjórninni varðandi dreifingu ferðamanna um landið og hvort hún styðji raunverulega að flugþróunarsjóður verði lagður af.