149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:18]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að ræða um jöfnun húshitunarkostnaðar milli dreifbýlis og þéttbýlis og spyrja hæstv. ráðherra hvort gert sé ráð fyrir því í fjármálaáætlun að þessi mismunandi kostnaður sé fullfjármagnaður.

Húshitunarkostnaður er hluti af rekstrarkostnaði heimilanna og um 7,5% af vísitölu neysluverðs má rekja til húshitunarkostnaðar og rafmagns. Þessum kostnaði er mjög misjafnt skipt á Íslandi eins og við þekkjum. Tæpur tíundi hluti landsmanna býr á svæðum þar sem notast er við rafhitun eða kyntar hitaveitur. Miðað við laun eftir skatta má gera ráð fyrir því að íbúar í dreifbýli þurfi að vinna u.þ.b. tvær vikur á ári til að kynda húsið sitt en íbúi á hitaveitusvæði geti sloppið með tæpa viku. Hér er ekki tekið með í reikninginn að tekjur í dreifbýli eru lægri en í þéttbýli en það hafa gögn Hagstofunnar sýnt.

Mér skilst að það myndi kosta ríkissjóð eitthvað yfir 700 millj. kr. aukalega að niðurgreiða rafhitun til íbúðarhúsnæðis þannig að kyndingarkostnaður yrði sambærilegur meðalkostnaði íbúa þar sem þessi kostnaður er lægstur. Ég vildi gjarnan vita hvort eigi að stíga þetta skref til fulls á næstu fjórum árum.

Við þekkjum að lög voru sett árið 2015 þar sem var ákveðið jöfnunargjald á dreifiveitur til að auka fjármagn inn í þessa niðurgreiðslu á flutningi á raforku. Það fjármagn hefur samt ekki dugað til að jafna að fullu. Svo er hinn þátturinn varðandi jöfnun húshitunarkostnaðar. Sá kostnaður er mjög mismunandi og mikill verðmunur á milli hitaveitna á landinu, ég tala nú ekki um í dreifbýli þar sem menn þurfa að kynda með raforku.