149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:20]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Þakka hv. þingmanni spurninguna. Ég tek undir með henni. Við stöndum okkur ekki nægilega vel þegar kemur að þessu og maður finnur fyrir því og heyrir hvert sem maður fer út um land. Við tryggjum í dag eingöngu 53% jöfnun dreifikostnaðar milli þéttbýlis og dreifbýlis en erum með markmið um að ná miklu hærri prósentu.

Þannig að við erum núna komin á þann stað að það eru tvær leiðir sem koma helst til greina. Annaðhvort að tvöfalda núverandi jöfnunargjald — í samræmi við það sem hv. þingmaður nefndi að við gerðum árið 2015 — þannig að það færi úr 0,3 kr. í 0,6 á kílóvattstund, sem hefur þau áhrif að tæpir 2 milljarðar í staðinn fyrir 980 millj. kr. verði til ráðstöfunar til að niðurgreiða gjaldskrár, eða að samþætta og sameina gjaldskrár dreifiveitna í landinu, óháð því hvort um dreifbýlisgjaldskrá eða þéttbýlisgjaldskrá er að ræða.

Þessi vinna er í fullum gangi í ráðuneytinu í samvinnu við Orkustofnun og fleiri. Það er gert ráð fyrir þessu. Í rauninni höfum við enn þá pláss fyrir þessar tvær leiðir í fjármálaáætlun og við höfum tímann fram af fjárlögum til að útfæra þær.

Það er auðvitað þannig að í rauninni lendir það ekki á ríkissjóði heldur eru það notendur sem greiða þá hærra verð. En alveg eins og það kostar það sama að horfa á Ríkissjónvarpið hvar sem maður er staðsettur — og aðrir þættir sem við höfum í rauninni jafnað um landið — er það út frá byggðasjónarmiðum mjög mikilvægt að þessi aðstaða sé jöfn. Stundum er það bara mun óhagkvæmara og þetta munar bara oft mjög litlu á einhverju litlu svæði.

Þetta er forgangsatriði í ráðuneytinu og við höfum komandi vikur til að útfæra og ákveða leið. Ef við erum með eina gjaldskrá er það í rauninni hreinlegri leið og varanlegri. Það er bara vonandi að við náum að útfæra hana og það kallar auðvitað líka á samtal við fleiri aðila.