149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:24]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Í fjármálaáætlun er gengist við því að framlögin á Íslandi séu minni en í nágrannaríkjunum og að það sé líka eftirsóknarvert að stuðla að því að á Íslandi styrkist grundvöllurinn undir fjárfestingar í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Þá er líka vitað að fjárfestingarstigið í atvinnulífinu í dag er allt of lítið og nauðsynlegt að bæta umhverfi rekstrar til að það batni.

Ef skoðaðar eru aðgerðir og mælikvarðar í málaflokknum nýsköpunar-, rannsókna- og þekkingargreinum er lítið að sjá af aðgerðum sem taka á kjarna málsins sem er að kostnaður við stofnun og rekstur fyrirtækja á Íslandi er of hár, að fjármálakerfinu er líka svolítið stillt upp þannig að það eru litlir hvatar til áhættufjárfestinga. Það er auðvitað jákvætt að heyra af þeim 10 milljörðum kr. sem stendur til að setja í sprotafjárfestingar og annað. En það kemur í sjálfu sér ekki til með að laga þann markaðsbrest sem er til staðar.

Arðsemi sjóðs- og skuldabréfafjárfestinga fer oft upp fyrir 10% á Íslandi. Ríkisskuldir eru jafnvel komnar í 8%. En hagvöxtur er aðeins 4,6% á síðustu 12 mánuðum og kemur til með að lækka samkvæmt hagvaxtarspánni í fjármálaáætlun. Þannig að við slíkar kringumstæðum er í rauninni verðmætara, með tilliti til áhættu fyrir fjárfesta, að mjólka arðsemi út úr nútímanum en að fjárfesta í uppbyggingu til framtíðar.

Þá er rétt að spyrja: Er að vænta einhverra aðgerða af hálfu hæstv. iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sem stuðla að því að íslenskt atvinnulíf verði beinlínis aðlaðandi fyrir fjárfestingar? Og ef svo er: Hvar birtast þær í fjármálaáætluninni eins og hún kemur fram? Eða svo ég orði það öðruvísi: Er á dagskrá þessarar ríkisstjórnar að láta hagvöxt fara umfram arðsemiskröfur á markaði og þá hvernig?