149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:27]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég myndi segja að verkfæri til að ná þessum markmiðum séu vissulega í fjármálaáætluninni, þ.e. við gerum ráð fyrir töluverðum fjármunum, allt að 10 milljörðum á næstu fimm árum, í nýsköpun. Sú vinna er í gangi að skoða hvernig þeim verði best varið.

Og fyrst líka er talað um markaðsbrest: Hér er verið að leggja upp með þennan fjárfestingarsjóð í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum sem er fyrir þessi áhættusamari verkefni og á þá að stuðla að því að einkafjárfestar taki aukinn þátt í fjárfestingum í nýsköpunar- og sprotasjóðum.

Hin aðgerðin er að við erum auðvitað að vinna þessa nýsköpunarstefnu. Hún mun bæði hafa ákveðið leiðarljós en koma síðan líka inn á hvað þurfi að gera til að ná þeim markmiðum sem þar eru sett. Við vitum að það er dýrara hér en annars staðar að stofna fyrirtæki og við vitum líka að umhverfið hér er að ýmsu leyti enn þá töluvert óþroskað miðað við nágrannalöndin.

Mitt helsta markmið með nýsköpunarstefnu og þeim aðgerðum sem við förum í í framhaldinu er í rauninni að lyfta nýsköpunarumhverfi á Íslandi úr — ég ætla nú ekki að gerast dómari, hvort það er úr fyrstu eða annarri tröppu — upp í svona fjórðu, fimmtu tröppu. Það mun auðvitað taka einhvern tíma en það mun líka kalla á það að við þurfum að vera dálítið kjörkuð við að taka ákvarðanir í þá veru. Vegna þess að við erum að setja töluverða fjármuni í nýsköpunarmál á Íslandi.

Við þurfum að svara því hreinskilnislega hvort þeir fjármunir séu allir á þeim stöðum sem þeir eiga að vera. Sömuleiðis þegar við stofnum þennan sjóð — það eru örugglega ýmsir sem munu gagnrýna það að ríkið sé að setja fjármuni í áhættufjárfestingar á fyrstu stigum. En ég trúi því að það sé rétt forgangsröðun fjármuna ríkisins. Það er það sem þau lönd hafa gert sem eru komin lengra en við, þau hafa þurft að byrja þarna. Ég viðurkenni það fúslega.