149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:30]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Það er alveg rétt að auðvitað hanga efnahagsmál og atvinnumál að verulegu leyti saman. Hvað varðar vaxtastigið er það verkefni sem engan enda tekur. Við erum auðvitað að ýmsu leyti á ágætum stað núna, sé litið til sögunnar. En það eru líka margir aðrir þættir sem ógna því.

Ég held að með því að marka þessa stefnu séum við að auka skilning og ganga meira í takti í þeim efnum og að það muni skila okkur árangri. Með þroskaðra umhverfi, líka í nýsköpunarumhverfinu heilt yfir, mun það mögulega líka hafa meiri áhrif á þróun mála, alla umræðu um atvinnumál og efnahagsmál og samhengi hlutanna þar.

Það er alveg rétt að þetta hangir að verulegu leyti saman og við þurfum að gera betur en við gerum nú.