149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:31]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að fá hér tækifæri til að ræða við hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um þau málefnasvið sem þeim ráðherra tilheyra. Ég vil byrja á því að staldra við ferðaþjónustuna og fagna sérstaklega áherslunni á uppbyggingu sjálfbærrar ferðaþjónustu og að mælikvarðarnir og verkefnin sem þar eru undir snúi öll að því hvernig við metum sjálfbærni og aukum hana. Þar eru markmiðin m.a. að auka verðmætasköpun um 1,5% á ári, fylgjast með viðhorfum til þróunar fyrirkomulags á starfsemi ferðaþjónustunnar og vinna að þróun ferðaþjónustunnar á grunni Parísarsamkomulagsins.

Ég fagna líka sérstaklega orðum ráðherra um að ekki sé á dagskrá að flugþróunarsjóður hverfi, þó að hann hafi ekki verið fullnýttur, því að ég tel að það sé mjög mikilvægt að nýta hann áfram sem hvata til að auka dreifingu ferðamanna um landið, hvort sem er með beinu flugi erlendis frá eða aukningu á framboði flugs sem þjónar ferðaþjónustunni sérstaklega innan lands.

Ég hef oft átt samtöl við hæstv. ráðherra um lykilhlutverk markaðsstofanna á landsbyggðinni við þróun ferðaþjónustu og markaðssetningu áfangastaða. Mig langar því að spyrja út í verkefnið „þróun starfs markaðsstofanna“ — hvað felst í því? Það kemur fram í fjármálaáætluninni að ferðamálaáætlun 2011–2020 sé í gildi en jafnframt að verið sé að móta langtímastefnu. Hvernig verður hún sett fram? (Forseti hringir.) Í nýrri ferðamálaáætlun eða á annan hátt?