149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:34]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar og er sammála hvað varðar sjálfbærnina.

Sjálfbærni, nýsköpun og innviðir — þetta eru allt mjög vinsæl orð. En sjálfbærni er auðvitað bara orð þangað til einhverjir mælikvarðar eru settir þar á bak við. Það er það verkefni sem við erum helst að vinna að núna.

Hvað varðar langtímastefnu ferðaþjónustunnar er þetta viðamikla verkefni sem við erum í, með m.a. EFLU verkfræðistofu, Stjórnstöð ferðamála, ráðgjöfum erlendis frá og öðrum, þar sem fræðasamfélagið og ýmsar stofnanir og aðrir taka þátt. Þar erum við búin með þennan fyrsta fasa, sem er að merkja þessa vísa, rúmlega 60 talsins. Núna, númer tvö, erum við að reyna að setja þessa mælikvarða þar á bak við. Við erum búin að segja: Hér er hámarkshraði — en hver á hann að vera? Nú erum við að reyna að finna út úr því hver hann eigi að vera.

Fasi þrjú í þessu verkefni er raunverulega þessi langtímastefnumótun í ferðaþjónustu. Við sjáum þá hvað kemur út úr fasa tvö. Það mun vísa okkur veginn í rauninni um hver langtímastefnan sé. Ef við erum búin að ákveða að við ætlum að reyna að vera sjálfbær og við erum búin að finna út úr þessum mælikvarða mun það marka leiðina — hvert við stefnum.

Hvað varðar þróun starfs markaðsstofanna eru markaðsstofurnar, eins og við höfum áður rætt hér í þessum sal, ég og hv. þingmaður, auðvitað sjálfsprottnar og eru að vinna mjög merkilegt starf mjög víða um land. Þær eru saman settar með ólíkum hætti. Við erum nú komin með yfirlýsingu um samstarf. Þau hafa ekki lögbundið hlutverk. Ég vil sjá markaðsstofurnar þróast á þann hátt að þær hafi lögbundið hlutverk. Mín skoðun er sú að þær eigi að þróast í þá átt að verða áfangastofur. Í samræmi við áfangastaðaáætlanir væru þær áfangastofur.

En ég er líka þeirrar skoðunar að frumkvæðið verði líka svolítið að koma frá þeim sjálfum. Ég mun ekki skrifa frumvarp gegn þeirra vilja og segja: Nú gerið þið þetta. En ef okkur á að takast að þróa markaðsstofurnar áfram svo þær hafi skilgreint hlutverk, mögulega líka t.d. í markaðssetningu, (Forseti hringir.) höfum við verk að vinna í því hvernig þær eigi að þróast.