149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:37]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Það er nú ekki langt síðan ég var viðstödd þegar Auðna – tæknitorg var formlega opnuð. Það er í rauninni okkar verkefni að tryggja fjármuni í hana. Fjármálaáætlunin veitir okkur svigrúm til að útfæra það nánar þannig að ekkert annað er á dagskrá en að tryggja henni áfram líf og efla hana enn frekar, vegna þess að í rauninni er hún sömuleiðis löngu tímabært skref, þó að maður fagni því mjög þegar það loksins er tekið. En við höfum vitað í mjög langan tíma að það er mjög mikilvægt.

Það sem við þurfum einna helst í þessu nýsköpunarumhverfi er miklu meiri sambúð og minni fjarbúð — ég held að það séu nú bara orð hv. þingmanns sem ég greip á lofti og er búin að nota á mörgum fundum síðan. Mér finnst þau fanga mjög vel hvert hlutverkið er. Auðna – tæknitorg er liður í því að reyna að ná með betri hætti þekkingu sem verður til í fræðasamfélaginu og koma henni yfir í hagnýta þekkingu, verðmæti og fyrirtæki o.s.frv.

Þannig að það er alveg klárt að Auðna – tæknitorg er komin til að vera, byrjar smátt og verður stærri.