149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:39]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Ég þakka fyrir tækifærið til að fá að spyrja hæstv. ráðherra aðeins út í ferðaþjónustuna. Ég vona að hæstv. ráðherra virði það við mig að ég hef kannski meiri áhuga á undirliggjandi stöðu greinarinnar en einstökum fjárveitingum eða mælikvörðum á markmið stjórnvalda og stefnumótun þó að ég fagni mörgu af því góða starfi sem þar er verið að vinna. Það er löngu tímabært að taka stefnumótun fyrir greinina fastari tökum en verið hefur. Staðan er í einföldu máli sú að efnahagslegar forsendur fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar hvíla dálítið á þessari atvinnugrein og hver þróun hennar verður á þessu ári og komandi misserum. Þar eru mjög þung ský yfir okkur.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra aðeins út í hennar mat á stöðunni. Í fjármálaáætluninni er gert ráð fyrir liðlega 2% fækkun ferðamanna. Nýjasta spá Isavia virðist benda til þess sem og rauntölur sem við höfum séð það sem af er ári að staðan gæti orðið öllu lakari en svo. Og í morgun birti Arion banki nýja hagspá þar sem gert er ráð fyrir á bilinu 9–16% fækkun ferðamanna til landsins, allt eftir því hvort WOW tekst að komast fyrir vind eða ekki. Í þeirri spá er gert ráð fyrir að þetta leiði á endanum til 1–2% samdráttar í landsframleiðslu sem er töluverður viðsnúningur frá þeirri hagspá sem við erum að vinna hér út frá.

Hvert er mat hæstv. ráðherra á þessari stöðu? Hvað telur hæstv. ráðherra raunhæft að ætla í þessum efnum miðað við þekkingu hennar á málaflokknum?