149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:41]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Hér togast sjónarmið svolítið á. Þetta eru þannig dagar að maður þarf að passa sig á að vera búinn að kíkja á símann þegar maður fer í ræðustól til að vita hvað er að gerast. Allt breytist svo hratt. Þetta sýnir að mörgu leyti um hve brothætt umhverfi og atvinnugrein er að ræða. Þetta sýnir líka hvað við erum ótrúlega háð fluginu. Þetta eru tvær atvinnugreinar. Flugrekstur er eitt og ferðaþjónusta er annað. Í mörgum löndum eru miklu skýrari skil þarna á milli. En hér erum við svo ótrúlega háð fluginu að þetta verður allt samofið. Hagsmunir flugsins eru oft aðrir en hagsmunir ferðaþjónustunnar eða hagsmunir okkar sem samfélags hvað það varðar hvað við viljum fá út úr atvinnugreininni. Ef maður tekur óvissuna um þetta tiltekna flugfélag núna út fyrir sviga hef ég fram til þessa almennt sagt: Það að verulega hægi á fjölgun er í sjálfu sér gott. Vöxturinn hefur verið ósjálfbær. Það felast líka í því tækifæri að geta aðeins andað ofan í kviðinn, tekið ákvarðanir, hvort sem þær varða stjórnvöld eða fyrirtækin en ef við sjáum einhverja dýfu eða mikla fækkun rífur það auðvitað í allt saman og sérstaklega hjá fyrirtækjum sem standa verr.

Ég hef alltaf staðið föst á því að fjöldi ferðamanna sé ekki það sem skiptir máli, að við getum ekki búist við því að þessi fjölgun verði áfram. Þrátt fyrir að fjölgunin standi nánast í stað er ekki þar með sagt að það sé vont, heldur er okkar verkefni miklu frekar að tryggja að gæðin séu slík að fólk komi, það dvelji lengur, fari um landið og eyði hér peningum. Það er það sem við viljum sjá í ferðaþjónustunni en ekki bara horfa á tölurnar hækka. Það er kannski hagfræðingasvar að segja að allt jafni sig á endanum. Til lengri tíma er framtíð ferðaþjónustunnar björt. Núna eru bara þannig aðstæður að það er ótrúlega erfitt að spá fyrir um hvað gerist t.d. út (Forseti hringir.) þetta ár.