149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:43]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Það er rétt að margoft hefur verið bent á það á undanförnum árum að við ættum að einblína á gæði ferðamannanna en ekki fjölda þeirra. Auðvitað eru áfram fjölmörg tækifæri en það breytir því ekki að þróun ferðaþjónustunnar hér á landi er á komandi misserum og árum mjög undir þróun í fluginu komin. Í nýrri hagspá t.d. Arion banka er verið að benda á að vandamálið við rekstrarhorfur WOW sem slíks er ekki bara skammtímasveifla heldur sú staðreynd að sú mikla aukning sem orðið hefur í flugi í Evrópu allri á undanförnum árum hafi byggst á mjög lágu eldsneytisverði og mjög lágum flugfargjöldum, að þar séu horfur á vatnaskilum og að við séum löngu búin að horfa fram á eldsneytishækkunina en eftir standi að fjöldi flugfélaga sé rekinn með tapi og það sé einfaldlega komið að því að það dragi úr framboði. Þess vegna (Forseti hringir.) leiðir maður hugann að því hvaða áhrif það muni hafa á ferðaþjónustuna hér til millilangs tíma og hversu vel hún sé í stakk búin sem atvinnugrein til að takast á við það eftir þennan hraða vöxt.