149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:46]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegur forseti. Það er tvennt sem liggur mér á hjarta og mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra um. Í fyrsta lagi hef ég verið að velta fyrir mér þeim orkuskorti sem landsbyggðin hefur þurft að horfast í augu við, eins og t.d. á Akureyri og Norðausturlandinu. Það leiðir að spurningunni: Veit hæstv. ráðherra hvað er að gerast í sambandi við þessa svokölluðu Blöndulínu eða hvort menn séu farnir að snúa sér að Kröflu til að koma aukinni orku inn á svæðið?

Nú er vitað að það er verið að keyra orku á dísilstöðvum. Það er sennilega ekki það sem við viljum þegar skortur er á rafmagni. Þetta er líka að gerast á Vestfjörðum, þó að það sé önnur lína, en spurningin er: Við sjáum þetta stóra mikla átak sem Landsnet er að ráðast í núna, búið að eyrnamerkja um 8 milljarða kr. sem þeir segjast vera að fara í í sambandi við kostnað til að reyna að tengja landsbyggðina betur og reyna að jafna aðkomu allra að orkunni.

Hitt er svo í sambandi við Íslandsstofu og í sambandi við hvað við erum að gera til þess að sporna gegn því á alþjóðavettvangi, hvernig hugsanlegur samdráttur kemur til með að verða núna í ferðamannastraumnum. Ég veit að þetta eru tvær spurningar og við eigum kannski pínulítið eftir á eftir til að tala um það. En það er þetta sem ég var að velta fyrir mér. Og í sambandi við t.d. Blöndulínu varð þarna ákveðinn ásteytingarsteinn: Ég spyr hvort eitthvað hafi greiðst þar úr og hvort hæstv. ráðherra viti nokkurn veginn hvar málið er statt í dag.