149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:48]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. Það er hárrétt að staðan er ekki viðunandi eins og hún er núna hvað varðar flutningskerfi raforku. Hér er spurt sérstaklega um Norðurlandið. Áður var það þannig að Blöndulína átti að vera fyrst á dagskrá þegar horft var til Kröflulínu, Hólasandslínu og Blöndulínu. Nú er sú framkvæmd komin aftast í röðina út af öllu því sem þar hefur gengið á. Nú er hún áætluð, að mér skilst, árið 2023. En Kröflulína þrjú er á áætlun og á að fara af stað núna með vorinu. Fyrsta framkvæmdaleyfið er komið. Og bara við þessar þrjár línur er kostnaður upp á rúma 20 milljarða kr.

Ég er bjartsýn að eðlisfari og bind vonir við að okkur takist að vinna þetta jafnt og þétt, þessar framkvæmdir. Ég trúi því að það sé aukinn skilningur og sátt um mikilvægi þess að að sjálfsögðu þarf flutningskerfið að virka fyrir fólk sem býr úti um allt land. Það er aðstöðumunur á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggð. Það getur ekki talist sanngjarnt.

Svo er það sjálfstætt verkefni að koma 50 MW, sem Orkustofnun telur að fari til spillis, séu sóun í kerfinu, á sinn stað. Af því að flutningskerfið er ekki nógu öflugt og dreifikerfið til að koma þessu á sína staði ætti það að vera verkefni í sjálfu sér, út frá umhverfismálum og öðru, að koma þessum megavöttum líka til fólks og fyrirtækja.

Blöndulína átti, eins og ég segi, að vera fyrst en er nú síðust. Það er alls ekki komið í höfn. En ég vona að með þessu vinnulagi, samtali, fundum og samráði komumst við nær því að geta saman klárað þessar framkvæmdir sem eru svo mikilvægar.