149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:51]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Það er alveg rétt, Inspired by Iceland, eða Ísland allt árið, skilaði mjög miklum árangri. Það er enn þá í gildi. En við erum með nokkra samninga, þ.e. mitt ráðuneyti, við Íslandsstofu um þessa þætti og nú er það allt í endurskoðun þegar við erum komin með nýtt fyrirkomulag um Íslandsstofu. Það er í skoðun hvernig það mun líta út.

Það sem hefur breyst undanfarin ár eru áhrif áhrifavalda í allri markaðssetningu á landinu. Hv. þingmaður nefnir Justin Bieber. Auðvitað höfum við líka lent í vandræðum; hann fer í Fjaðrárgljúfur og við endum á því að þurfa að loka af því að enginn bjóst við öllum þessum ágangi á slíka staði. Þetta er því allt saman mjög breytilegt og á mikilli hreyfingu.

En hvað varðar sérstakt átak erum við hluti af þessari viðbragðsáætlun okkar og mögulegum viðbrögðum. Ef veruleg röskun verður á flugi eða ytra umhverfi ferðaþjónustunnar hér er eitt af því sem þarf að skoða sérstaklega hvort við förum í slíkt átak og hverju það gæti skilað okkur.