149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:52]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir það sem hæstv. ráðherra hefur haft fram að færa um málaflokk sinn. En ég vil samt sem áður ræða aðeins um gjaldtöku af ferðamennsku eða af ferðaþjónustunni.

Árið 2013, þegar sá sem hér stendur kom inn á þing voru menn sammála um að ekki væri eftir neinu að bíða með að leggja einhvers konar gjöld á ferðaþjónustuna. Menn voru súrir yfir að hafa ekki gert það löngu, löngu fyrr. Nú kemur í ljós að við erum búin að eyða þessum sex árum og höfum ekki gert neitt í því. Fram kemur í inngangi að kafla 14 að áætlanir um virðisaukaskattshækkun á þessa grein hafi verið lagðar til hliðar út þetta kjörtímabil, sem er náttúrlega mjög gott vegna þess að það var galskapur að gera það. En það má eiginlega segja að í greininni segi að leit standi yfir að tekjuöflun.

Út af fyrir sig er einfaldasta leiðin til að taka sem tekjur af þessari starfsemi kannski einfalt gjald sem yrði lagt ofan á hvern farmiða hingað til landsins, þ.e. bæði í flugi, ferjum og skemmtiferðaskipum. Það þyrfti ekki að vera hátt til að söfnuðust saman miklar upphæðir.

En síðan er annað að við höfum ekki sinnt því fyrr en kannski núna seinustu mánuðina að innheimta af starfsemi sem þegar er í gangi. Þegar mest lét var framboð af Airbnb íbúðum jafn mikið t.d. á höfuðborgarsvæðinu og öll hótelherbergi. Við létum þetta átölulaust. Það var ekkert gert til að skrá þetta. Það gerði hæstv. ráðherra og ég er henni þakklátur fyrir það og hrifinn af því.

En ég óttast það jafnframt því að nú er gefið í skyn að þeirri skráningu og sérstaka átaki í skráningu verði hætt núna um mitt ár. Það þykir mér mjög illt vegna þess að einmitt með því að nýta þegar álögð gjöld, vera ekki að setja á ný, heldur nýta það sem fyrir er, ættum við að geta náð tekjum út úr greininni sem við erum ekki að ná núna.