149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:55]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar og sjónarmið hans. Fyrst varðandi það að við höfum ekki gert neitt — ég er alveg ósammála því. Við höfum auðvitað farið í ákveðnar breytingar, til að mynda með breytingu á umferðarlögum sem heimilar bílastæðagjöld í dreifbýli en ekki bara í þéttbýli, sem hefur létt verulega undir á ákveðnum stöðum. Þjóðgarðar hafa heimild til að rukka gjöld og eru farnir að gera það, ekki öllum til mikillar gleði, en þar er heimild sem skiptir máli að nýta rétt.

Það er enn þá hópur að störfum sem er að fara yfir þessi mál. Ég er svo sem alveg róleg yfir því þótt líði einhverjar vikur áður en hann skilar, enda held ég að hvers kyns umræða um frekari gjaldtöku á ferðaþjónustuna á þessum tímapunkti sé frekar þung í vöfum. Mér finnst þau verkefni sem við blasa ekki snúa að því sérstaklega að leggja frekari gjöld á greinina.

Við erum með gistináttaskatt sömuleiðis og þar er ég sammála. Það blandast kannski aðeins saman, komugjald og gistináttaskattur vegna þess að við getum breikkað þann skattstofn. Í dag er slíkt ekki á skemmtiferðaskipum og öðrum þáttum og ekki heimagistingu, það væri hægt að breikka þann skattstofn þannig að allir sem kæmu borguðu fyrir hverja nótt. Sem fjármagnaði þá ákveðin verkefni, t.d. uppbyggingu innviða víða um land.

Um heimagistinguna. Átakinu er vissulega lokið en gert er ráð fyrir viðvarandi eflingu í því. Það er ekki þannig að við höfum farið í átak og förum svo aftur til baka í gamla horfið, heldur erum við núna að tryggja fjármuni eins og þarf þannig að eftirlitið virki sem skyldi. Svo erum við vonandi að koma með inn í þingið fyrir tilskilinn frest frumvarp sem bætir enn frekar þetta umhverfi. (Forseti hringir.) Ég kem nánar að því í seinna svari.