149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:57]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svörin. Þau voru greinargóð eins og hennar er von og vísa. Ég gleðst yfir því að halda eigi áfram Airbnb-átakinu og væri gott að heyra það frá hæstv. ráðherra hversu mörgum skráningum sérstaka átakið skilaði. Það voru í kringum 3.000 einingar, ef ég man rétt, sem voru óskráðar, bara á höfuðborgarsvæðinu. Það væri fróðlegt að heyra af því.

En síðan er annað sem ég held að skipti máli í þessu samhengi. Það er dreifing kraftanna. Ég held að ferðaþjónusta og/eða ferðamennska sé á einum fjórum stöðum í hverjum fjárlögum. Við erum með Íslandsstofu, Ferðamálastofu, við erum með sérstakar ráðstafanir í ferðamálum og ég held að þarna ættum við að fara í sameiningu. Við ættum að sameina krafta. Það er líka önugt fyrir þá sem eru að byrja í þessum rekstri að þurfa að sækja alls konar leyfi og slíkt á mörgum stöðum. Ég held að þetta flækjustig sé manngert og við eigum að vinda ofan af því.