149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:58]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Hv. þingmaður kemur inn á svo marga áhugaverða punkta að ég vildi að ég hefði nokkrar mínútur til að svara.

Fyrst varðandi það hvað ferðamálin eru á víð og dreif í stjórnkerfinu. Það er alveg hárrétt. Við erum nýbúin að breyta fyrirkomulagi Íslandsstofu og almennt hlutverk hennar er að markaðssetja Ísland fyrir allar atvinnugreinar. En það sem mér finnst vera lykilatriði í þessu er að við komum á fót leyfisveitingagátt sem er í mótun og ég vona að fari að líta dagsins ljós. Því að það á ekki að skipta þann máli sem ákveður að stofna fyrirtæki í ferðaþjónustu eða öðru við hvaða opinbera eftirlit eða stofnun hann talar heldur fari hann einfaldlega á netið, þar fyrir aftan er það síðan okkar að koma því á rétta staði. Það myndi einfalda þetta mjög vegna þess að ferðaþjónustan mun alltaf vera mjög víða í stjórnkerfinu. Angar hennar liggja víða. Það sýnir líka mikilvægi samgöngumála fyrir ferðaþjónustuna, landsáætlun sem heyrir undir umhverfisráðherra og þar fram eftir götunum.

Varðandi heimagistingarátakið mun ég koma þessum skilaboðum betur á framfæri vegna þess að ég er ótrúlega ánægð með þetta allt saman. Það eru yfir 3.000 ábendingar um óleyfilega skammtímaleigu sem hafa verið (Forseti hringir.) mótteknar frá því átakið fór af stað. Það eru 23 milljónir, bara í skráningargjöld, og þau koma á hverju einasta ári. Það hefur fjöldi íbúða farið í sölu fyrir vikið. Sýslumenn á höfuðborgarsvæði gera ráð fyrir að svört atvinnustarfsemi hafi dregist saman um 35% frá því að átakið hófst.