149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:00]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Á síðasta iðnþingi flutti hæstv. ráðherra ágæta ræðu og talaði m.a. um mikilvægi nýsköpunar. Efling hennar kæmi ekki í stað hefðbundinna greina heldur ynni með þeim, þróaði þær áfram. Þetta er auðvitað hárrétt. Það er út af fyrir sig gleðilegt að það hafi verið aukning á fé til nýsköpunar í þessari áætlun en fyrsta spurningin er hvort hún telji ekki skrýtið að á sama tíma sé verið að minnka fé til háskóla sem eru kannski útungunarstöðvar hugvitsins.

Mig langar að ræða við ráðherra um byggingariðnaðinn sem er gríðarlega mikilvæg atvinnugrein og stendur fyrir um 8% af landsframleiðslunni. Gott og öruggt húsnæði er meðal grunnþarfa okkar, ekki síst í landi sem býður upp á íslenska veðráttu. Uppbyggingin hefur ekki verið nógu hröð. Byggingarkostnaður er of hár. Þetta stendur venjulegu fólki fyrir þrifum. Stærstu ástæðurnar eru örugglega mikill fjármagnskostnaður á sama tíma og framleiðni er talsvert minni en hjá nágrannaþjóðum okkar og við hvoru tveggja þarf að bregðast. Við gætum auðvitað átt langa samræður um kostnaðinn við krónuna en hér ætla ég að einbeita mér að framleiðninni. Hvernig útskýrir ráðherra algjört metnaðarleysi þegar kemur að fjármögnun rannsókna og eflingu nýsköpunar í íslenskum byggingariðnaði?

Það eru aðrir þættir líka sem ættu ekki síður að hvetja til þessara hluta, t.d. hollustuhættir. Vandamál samfara myglu eru sífellt meira rædd og hana má eflaust að miklu leyti rekja til rangrar umgengni í byggingum en ekki síður þeirra byggingaraðferða sem hér hafa tíðkast. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort það felist ekki ótrúleg skammsýni og sóun í því að verja ekki meiru fé til þessara mála í ljósi þess að það mun leiða til ódýrara húsnæðis, hraðari uppbyggingar og auðvitað heilbrigðari vistarvera.