149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:02]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. Fyrst varðandi nýsköpunarmálin þá er það rétt að ég kom inn á þau mál í ræðu minni á iðnþingi og ég er þeirrar skoðunar og hef þá trú að nýsköpun í breiðu samhengi sé mikilvægasti hluti okkar samfélags í dag og við allar okkar ákvarðanir eigum við að hafa mikilvægi hennar í huga og hugsa til þess hvaða áhrif þær kunna að hafa á hvers kyns nýsköpun.

Hvað varðar byggingamálin þá voru nokkur atriði rædd. Fyrst varðandi kostnað og allt umhverfi og regluverk þá tek ég undir með hv. þingmanni. Það er ástæða þess að við fórum í þetta verkefni með OECD, samkeppnismat, sem kostar töluverða fjármuni, yfir 100 milljónir, þar sem við tökum fyrir tvo geira, annars vegar ferðaþjónustuna og hins vegar byggingargeirann til þess að reyna að horfa á þetta í heildarsamhengi. Hvar eru t.d. hindranir? Hvar erum við með óþarflega flókið regluverk? Við skorum almennt mjög lágt á listum í samanburði við önnur nágrannalönd þegar kemur að flækjustigi og kostnaði við að byggja.

Hvað varðar spurningar um myglu og rannsóknir þá get ég ekki annað sagt en að ég sé sammála hv. þingmanni. Ég hef fundað með fólki sem segir: Þið horfið framan í allt tekjutapið og vesenið af því að það er mygla út um allt en samt finnast ekki fjármunir til þess að rannsaka það. Það kann að vera að þetta sé málaflokkur sem finnur fyrir því að hann fellur á milli og ábyrgðin er mögulega of víða. (Forseti hringir.) Það stendur ekki á mér að reyna að koma einhverju samtali á milli stofnana og ráðuneyta til þess að reyna að (Forseti hringir.) tryggja einhverja fjármuni í þessi verkefni því þau eru mikilvæg.