149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:07]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Í þessari umferð langar mig að hætta á að spyrja hæstv. ráðherra um tvennt ólíkt sem snýr þó hvort tveggja að mælikvörðum. Í fyrsta lagi: Í mælikvarða 1 í málaflokknum Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar er talað um að árangurshlutfall umsókna í rannsóknar- og nýsköpunaráætlun ESB hafi verið 18,1% árið 2018 en til standi að viðmiðið verði 18% árið 2020 og sömuleiðis 18% árið 2024.

Hvers vegna er gert ráð fyrir stöðnun í því árangurshlutfalli sem fyrsta og eina mælikvarða um árangur í nýtingu rannsóknarsjóða við rannsóknir og nýsköpun? Má ekki sýna einhvern meiri metnað í því, eins og t.d. að mjakast upp í 19% eða jafnvel mæla árangur í fjölda þeirra sem njóta góðs af rannsóknum og þróun, eins og er sums staðar gert, t.d. hjá DARPA Í Bandaríkjunum, frekar en að mæla bara fjölda árangursríkra umsókna sem segir okkur auðvitað mjög takmarkað um hverjar niðurstöðurnar eru?

Í öðru lagi: Markmið í hlutfalli endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum, sjávarútvegi og skyldri starfsemi eru áætlað meira en 3% fyrir 2024 og 14% í samgöngum almennt sama ár. Árið 2018 var hlutfallið 8% í samgöngum og 0,8% í sjávarútvegi. Þetta hljóðar því aðeins upp á sex prósentustiga hækkun í samgöngum á fimm árum sem ætla mætti, miðað við áherslur í umhverfismálum, að hlyti að teljast afskaplega óframsækið markmið. Meðan tíföldun í sjávarútvegi yfir sömu fimm ár er vissulega öflugra markmið rímar það rúmlega 3% markmið afskaplega illa við þann koltvísýringsamdrátt sem krafa er um fyrir árið 2030.

Eru einhverjar sérstakar ástæður fyrir metnaðarleysinu sem kemur fram í því markmiði? Er ekki hægt að setja markið hærra í báðum flokkunum?